AmabAdamA er lífleg hljómsveit með meiru og á það
bæði við lagasmíðar þeirra og sviðsframkomu. Sveitin
hefur starfað í núverandi mynd frá því um vorið 2013
og er óhætt að segja að hún hefur skapað sér sess
sem framvarðasveit íslensku reggísenunnar.
Platan Heyrðu mig nú, sem kom út sl. haust hefur
fengið frábæra dóma og lögin Gaia, Það sem þú gefur,
Eldorado og síðast en ekki síst Hossa Hossa hafa
heyrst ótt og títt á öldum ljósvakans. Síðastnefnda
lagið var í 2. sæti yfir mest spiluðu lög ársins
2014 á Rás 2.
Meðlimir:
Steinunn Jónsdóttir - söngur
Gnúsi Yones - söngur
Salka Sól - söngur
Andres Xavier Panunto - bassi
Ingólfur Arason - gítar
Höskuldur Eiríksson - trommur
Ellert Björgvin Schram - hljómborð
Kiriyama Family er eitt af áhugaverðustu ungu böndum
landsins, en fyrsta plata sveitarinnar kom út árið
2012. Platan fékk frábæra dóma og lögin Weekends,
Heal og Sneaky boots nutu mikilla vinsælda.
Ný plata
er væntanleg frá þeim á árinu og fyrsta smáskífa
plötunnar, Apart, kom út í fyrra og var 3. mest
spilaða lag ársins á Rás 2. Sveitin er rómuð fyrir
frábæran flutning á tónleikum, gífurlega stemmningu
og almenna gleði.
Meðlimir:
Bassi Ólafsson - Trommur
Bjarni Ævar Árnason - Hljómborð
Guðmundur Geir Jónsson - Gítar, bassi og hljómborð
Hulda Kristín Kolbrúnardóttir - Söngur
Karl Magnús Bjarnarson - Söngur, gítar bassi og
hljómborð
Víðir Björnsson - Gítar, bassi og hljómborð
Heimamaðurinn Svavar Pétur Eysteinsson, Prins Póló
mun að sjálfsögðu koma fram á Hammondhátíð ásamt
Hinni konunglegu hirð. Vinsældir hljómsveitarinnar
hafa verið gífurlegar síðustu misserin, platan Sorrí
sem kom út árið 2014 hefur rakað að sér verðlaunum
og viðurkenningum og var nú síðast valin plata
ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum.
Lögin Tipp topp, Bragðarefir, Hamstra sjarma og
Fallegi smiðurinn af plötunni Sorrí hafa notið
mikilla vinsælda auk lagsins París norðursins, sem
hlýtur að teljast einn stærsti smellur áratugarins.
Það er sérstaklega ánægjulegt að bjóða upp á þessa
hljómsveit, "beint frá býli", Karlsstöðum í Berufiði.
Meðlimir:
Prins Póló - söngur og gítar
Berglind Häsler - hljómborð, söngur
Kristján Freyr Halldórsson - trommur
Benedikt Hermann Hermannsson - bassi
Alex Flex Árnason - hljóðmeistari
Jónas Sigurðsson og Ritvélar
framtíðarinnar eru án nokkurs vafa
eitt rómaðasta tónleikaband landsins.
Stemmningin sem myndast á tónleikum
bandsins er engu lík, sumir vilja
líkja henni við trúarlega upplifun.
Jónas Sigurðsson hefur notið mikilla
vinsælda síðustu árin, gefið út
þrjár plötur sem allar hafa hlotið
mikið lof gagnrýnenda. Svo virðist
sem allt sem hann snertir verði að
gulli.
Hamingjan er hér, Allt er eitthvað,
Hleypið mér út úr þessu partýi,
Ofskynjunarkonan, Hafið er svart,
Þyrnigerðið og Baráttusöngur
uppreisnarklansins á
skítadreifurunum eru meðal laga sem
allir Íslendingar kannast við og nú
nýlega tyllti Jónas sér á toppinn á
vinsældarlista Rásar 2 með lagið Af
ávöxtunum skuluð þið þekkja þá.
Þegar Ritvélar framtíðarinnar
sameinast síðan Jónasi á sviði
verður til einhver óútskýranlegur
kraftur sem lætur engan ósnortinn.
Rokk-kóngur Íslands og ein
vinsælasta þungarokksveit landsins
um árabil leiða saman hesta sína og
lög Utangarðsmanna og Das Kapital fá
að hljóma sem aldrei fyrr.
Bubbi stofnaði hljómsveitina
Utangarðsmenn árið 1979 með Mike og
Danny Pollock og þeir fengu með sér
Magnús Stefánsson og Rúnar
Erlingsson. Platan Geislavirkir kom
út í nóvember 1980 og var
tímamótaverk í íslenskri rokksögu. Á
plötunni voru til dæmis lögin
Hiroshima og Kyrrlátt kvöld.
Hljómsveitin Das Kapital starfaði í
tæp 2 ár og gaf út plötuna Lily
Marlene sem inniheldur meðal annars
lögin Blindsker og Leyndarmál
frægðarinnar og Das Kapital talin
ein helsta költ sveit rokksins.
MAGGI EIRÍKS OG PÁLMI GUNNARS
ÁSAMT ÞÓRI ÚLFARS
Þá Magga Eiríks og Pálma Gunnars þarf ekki að kynna.
Við ætlum nú samt að gera það ef vera skyldi að
einhver þekki ekki til þeirra. Þeir tveir mynda
hryggjarstykkið í hinni sígildu hljómsveit Mannakornum, sem hefur verið starfandi frá árinu
1974. Mannakorn gaf í fyrra út plötuna Í núinu, á 40
ára starfsafmæli sveitarinnar og fékk platan frábæra
dóma.
Sennilega myndi þessi heimasíða ekki duga til að
lista upp allar þær perlur sem þessir tveir hafa
samið og sungið í gegnum tíðina, bæði með
Mannakornum og í sitthvoru lagi, ýmist einir og sér
eða með öðrum. Pálmi gerði t.d. garðinn frægan með
Brunaliðinu og samstarf Magnúsar og KK er bæði langt
og farsælt.
Þessum heiðursmönnum til halds og trausts verður
sjálfur Þórir Úlfarsson sem sextán ára gamall
spilaði í fyrsta skipti með Mannakornum og hefur
leikið með þeim reglulega síðan. Þórir hefur einnig
leikið með mörgum af þekktustu hljómsveitum og
listamönnum landsins og nægir þar að nefna Trúbrot,
Hljóma, Björgvin Halldórsson, Pál Rósinkranz, Eirík
Hauksson og marga fleiri.
Það er okkur mikill heiður að bjóða upp á þessa
snillinga á Hammondhátíð.