FORSÍÐA | UM HÁTÍÐINA | UPPLÝSINGAR | MIÐASALA | 2024 | 2023 | 2019 | 2018 | 2017 | 2016 | 2015 | 2014 | 2013 | 2012

 


LISTAMENN HAMMONDHÁTÍÐAR 2016

STUÐMENN
AGENT FRESCO
VALDIMAR
SIGRÍÐUR THORLACIUS
MURMUR
 



STUÐMENN

Það er okkur ótrúlegur heiður að kynna til sögunnar á Hammondhátíð stærstu hljómsveit Íslandssögunnar, hljómsveit allra landsmanna, hina einu sönnu Stuðmenn.

Þessi heimasíða nægir ekki til að útlista sögu Stuðmanna, né heldur lögin sem allir landsmenn þekkja, en hljómsveitin var stofnuð árið 1970 í Menntaskólanum við Hamrahlíð af Valgeiri Guðjónssyni og Jakobi Frímanni Magnússyni. Síðan þá hafa nýir liðsmenn bæst við, sumir hætt og enn nýir bæst við, svona eins og gerist og gengur. Breiðskífurnar eru að nálgast annan tuginn og safn- og tónleikaplöturnar, bækurnar og bíómyndirnar eru fjölmargar. Það sem einkennir helst tónlist Stuðmanna er að hún á sér engin takmörk, er hvorki bundin við stíl, tíðaranda né tískusveiflur. Hún leyfir sér að vera utan allra landamæra og að fara á móti ríkjandi stefnum og straumum hverju sinni.

Stuðmenn fóru mikinn í tónleikahaldi á árinu 2015. Um sumarið minntust þeir þess að tímamótaverkið Sumar á Sýrlandi fagnaði 40 ára afmæli með tvennum tónleikum í Hörpu. Aðra tvenna tónleika héldu þeir svo í Gamla bíói í nóvember þar sem þeir beruðu sig andlega frammi fyrir alþjóð og sviptu hulunni af leyndarmálum flekkaðrar fortíðar. Hver veit nema við fáum einhvern smjörþef af nektinni? Annars er ómögulegt að segja upp á hverju Stuðmenn taka á Hammondhátíð Djúpavogs en við getum að minnsta kosti lofað ykkur því að það verður ógeðslega gaman.

Stuðmenn spila á laugardagskvöldi Hammondhátíðar 2016, 23. apríl.
 

Meðlimir:

Jakob Frímann Magnússon - Hammond og söngur
Egill Ólafsson - söngur
Bryndís Jakobsdóttir - söngur
Valgeir Guðjónsson - gítar og söngur
Ásgeir Óskarsson - trommur
Tómas Magnús Tómasson - bassi
Guðmundur Pétursson - gítar







 

AGENT FRESCO


Agent Fresco er íslensk hljómsveit sem spilar polyrythmískt oddtime-rokk með djass ívafi. Þeir tóku þátt í Músíktilraunum árið 2008 og báru sigur úr bítum, en einnig fengu hljóðfæraleikararnir verðlaun fyrir gítarleik, trommuleik og bassaleik. Á Íslensku tónlistarverðlaununum 2008 hlaut hljómsveitin verðlaun sem Bjartasta vonin.

Agent Fresco hefur gefið út tvær plötur, A long time listening árið 2012 og árið 2015 gáfu þeir út þrekvirkið Destrier, sem hlaut einróma lof gagnrýnenda og platan var valin sú besta á Íslensku tónlistarverðlaununum sem fram fóru í byrjun mars. Þar var Arnór Dan söngvari einnig valinn söngvari ársins. Þá hlaut Agent Fresco Krókinn 2015 - viðurkenningu Rásar 2 fyrir framúrskarandi flutning á árinu.

Agent Fresco spilar á upphafskvöldi Hammondhátíðar 2016, fimmtudaginn 21. apríl.


Meðlimir:

Arnór Dan Arnarson - söngur
Hrafnkell Örn Guðjónsson - trommur
Vignir Rafn Hilmarsson - bassi
Þórarinn Guðnason - gítar








VALDIMAR


Hljómsveitin Valdimar var stofnuð árið 2009 þegar Valdimar Guðmundsson og Ásgeir Aðalsteinsson byrjuðu að semja lög heima hjá Ásgeiri. Fljótlega varð til 6 manna hljómsveit sem sló óvænt í gegn bæði hjá almenningi og gagnrýnendum. Fyrstu 2 plötur sveitarinnar nutu gríðarlegrar velgengni og sendi keflvíska gengið frá sér sína þriðju plötu ‘Batnar útsýnið’ í október á síðasta ári og hlaut hún frábærar viðtökur. Árið 2015 var Valdimar Guðmundsson kosinn söngvari ársins á íslensku tónlistarverðlaununum.

Tónlistin þeirra byggist upp á mikilli dýnamík allt frá rólegum melódíum, upp í drífandi, orkumikla og epíska kafla þar sem hljómsveitin spilar á fullu blasti. Þetta gerir lifandi flutning þeirra að ógleymanlegri upplifun. Tónlistarstefnu þeirra er best að lýsa sem electro indie blöndu með rætur í Americana tónlist, þó svo aðdáendum finnist það einfaldlega ekki skipta máli að skilgreina tónlist sveitarinnar.

Valdimar spilar á föstudagskvöldi Hammondhátíðar 2016, 22. apríl.


Meðlimir:

Þorvaldur Halldórsson - Trommur
Kristinn Evertsson - Hammond
Örn Eldjárn - Bassi
Valdimar Guðmundsson - Söngur og básúna
Högni Þorsteinsson - Gítar
Ásgeir Aðalsteinsson - Gítar








SIGRÍÐUR THORLACIUS

ásamt Guðmundi Óskari og Tómasi Jónssyni


Sigríður Thorlacius er borinn og barnfæddur Reykvíkingur. Hún gekk hinn hefðbundna menntaveg auk þess að leggja stund á tónlistarnám frá barnsaldri. Að loknu nokkurra ára námi á píanó við Tónmenntaskóla Reykjavíkur, hóf hún klassískt söngnám við Söngskólann í Reykjavík. Hún ákvað að söðla um og innritaðist í Tónlistarskóla FÍH haustið 2004 og lauk þaðan burtfararprófi frá jazzdeild skólans vorið 2008. Samfara söngnámi gekk Sigríður í Menntaskólann við Hamrahlíð og söng í kór skólans og síðar Hamrahlíðarkórnum.

Í gegnum starf sitt þar kynntist hún félögum sínum í hljómsveitinni Hjaltalín, en hún gekk til liðs við þá sveit árið 2006 og hefur starfað með þeim síðan. Sveitin hefur gefið út þrjár hljóðversplötur auk tónleikaplötu og -myndar sem tekin var upp á tónleikum með Sinfóníuhljómsveit íslands snemmsumars 2010, ásamt því að hafa samið tónlist fyrir bíómyndir og leikhús. Sigríður og Heiðurspiltarnir hennar gáfu út plötuna Á ljúflingshól haustið 2009, en sú plata inniheldur lög þeirra bræðra Jóns Múla og Jónasar Árnasona. Auk eigin verkefna hefur Sigríður sungið með ótal öðrum íslenskum listamönnum. Má þar t.d. nefna Retro Stefson, Baggalút, Björgvin Halldórsson, Memfismafíuna og Megas.

Sigríður hefur þrisvar sinnum verið tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna, árin 2015, 2013 og 2010, en þá vann hún verðlaunin sem rödd ársins. Hjaltalín var sama ár verðlaunuð fyrir plötu sína Terminal.

Sigríði til halds og trausts verða bassa- og gítarleikarinn Guðmundur Óskar Guðmundsson og Hammondséníið Tómas Jónsson, sem spilaði á Hammondhátíð árið 2012 ásamt okkar eigin Írisi Birgisdóttur. Guðmundur hefur getið sér gott orð sem bassaleikari Hjaltalín, Tilbury og Mono Town en hann kom ásamt þeim á Hammondhátíð árið 2014.







MURMUR


MurMur er austfirsk hljómsveit. Meðlimir komar frá Egilsstöðum, Berufirði og Reyðarfirði. Það má segja að fæðingarhríðir MurMur hafi hafist fyrir alvöru með hljómsveitarnámskeiði austurlands sem Jón Hilmar gítaraleikari á veg og vanda að. MurMur spilar blús skotið rokk með alls konar ívafi og stefnum.

MurMur hefur verið á mikilli keyrslu undanfarið og gert víðreist um fjórðunginn og spilað víða, s.s. jasshátíð austurlands, með Dúndurfréttum, blús og rokkhátíð Hafnar svo eitthvað sé nefnt og nú á Hammondhátíð. MurMur tekur einnig þátt í músiktilraunum í byrjun apríl.

Ep plata hljómsveitarinnar er í vinnslu og MurMur liðar stefna svo á stóra plötu í framhaldinu.

Meðlimir:
Ívar Andri Bjarnason - gítar og söngur
Bergsveinn Ás Hafliðason - trommur
Daði Þór Jóhannsson - bassi


 


 
 

Hafa samband