FORSÍÐA | UM HÁTÍÐINA | UPPLÝSINGAR | MIÐASALA | 2020 | 2019 | 2018 | 2017 | 2016 | 2015 | 2014 | 2013 | 2012 | 2011 | 2010

 


Hammondhátíð Djúpavogs 2010

Bj. Hafþór Guðmundsson og Ólafur Björnsson voru sérlegir rýnar Hammondhátíðar 2010.
Hér fyrir neðan má sjá umfjallanir eftir þá fyrir alla þrjá daga hátíðarinnar.

Þá er einnig hægt að skoða myndir frá hverju kvöldi, en tenglar á þær eru neðst í hverri rýni


Fimmtudagurinn

- Fyrsti í Hammond -


Þá er nú Hammondið komið á sinn stað og fimmta hátíðin gengin í garð.

Í upphafi var (fram)orðið, en það átti eftir að verða en meira en orðið var, því tónleikarnir drógust heldur á langinn.

Litlu strákanir í Friðpíku (Peace Pike) eru í raun ekkert litlir lengur, heldur eru þetta nánast fullvaxta karlmenn, en þó mun síður á þverveginn. Piltarnir fluttu frumsamin lög í bland við þekkta slagara og komust nokkuð vel frá því, en þó var ákveðinn losarabragur á allri framgöngu þeirra miðað við það sem menn vita að í þeim býr. Upp úr stendur þó hve ófeimnir þeir eru að vinna með eigið efni og matreiða það á sinn hátt.

Aroni Daða hefur farið mikið fram í söng og brá hann meira að segja fyrir sig ákveðinni tegund af rímnakveðskap sem meðal yngri kynslóðarinnar er kölluð rapp. Arnar Jón plokkaði kassagítarstrengina af mikilli festu og er fingrafimur með afbrigðum, enda með kjúkur langar og mjóar. Kjartan Ágúst hefur sýnt það að hann er fjölhæfur tónlistarmaður og Hammondorganið, sem varð á vegi hans í gærkvöldi, reyndist honum ekki mikil fyrirstaða, heldur strauk hann því blíðlega og tók undir með hljómagangi gítarleikarans.

56 riff's hófu síðan leik sinn og þá varð ekki aftur snúið.

Hljómsveitina skipa þeir Þorleifur Guðjónsson, Garðar Harðarson, Björgvin Gíslason og Ásgeir Óskarsson.

Um snilli þessara "öldunga" þarf ekki að fara mörgum orðum, enda hafa þeir áratuga reynslu að baki og hafa auk þess allir komið áður á Hammondhátíð og flestir oftar en einu sinni. Það er allavega ljóst að þeim hefur ekkert farið aftur síðan síðast.

Með í för var Margrét Guðrúnardóttir (Ásgeirsdóttir Óskarssonar) og kom hún mörgum á óvart, enda ekki þekkt nafn í tónlistarbransanum. Óhætt er að segja að þar fari ein af efnilegri blússöngkonum landsins, auk þess sem hún var ófeimin við Hammondið. Flutti hún lög úr eigin ranni, allt frá fönkskotnum blúslögum til hugljúfustu ballaða, sem sýna að hún er mjög efnilegur lagahöfundur.

Prógrammið í heild var fjölbreytt; blús, rokk og djass og tók Björgvin hvert heimsklassa gítarsólóið á fætur öðru, svo hrikti í stoðum hótelsins. Sólóin hjá Garðari voru öllu lágstemmdari, enda kemst gítarmagnarinn hans ekki í 11 eins og hjá Björgvini, en Garðar hefur svo sannarlega sýnt gestum Hammondhátíðar í gegnum tíðina að hann er einn albesti blúsari landsins. Eitt af því sem gerði efnisval þeirra félaga áhugavert voru instrumental lög. Túlkun Bjögga á Albatross gáfu ekki eftir tilþrifum Peter Green á sínum tíma. Lagið Europa úr smiðju Santana varð einnig stór rós í hnappagat sólóleikarans og þeirra allra.

Þorleifur heldur ennþá haus þrátt fyrir allan hristinginn og fílar sig greinilega alltaf í botn þegar hann kemst í það að vera hluti af góðri hrynsveit. Hann á mikinn heiður skilinn fyrir að koma saman þessu bandi og er ætíð aufúsugestur hér en þó samt ekki gestur hér um slóðir, þar sem hér á hann slotið Hamraborg, sem bæði er há og fögur.

Geiri er sko enginn Goldfinger, eins og nafni hans en læsir engu að síður fingrum sínum utan um kjuðana og breikar af beztu list, ásamt því að vera taktfastur með afbrigðum. Sönghæfileikar hans koma sífellt meira og meira í ljós á Hammondhátíðum og ekki brást hann aðdáendum sínum í þetta sinn.

Tónleikafélag Djúpavogs sló botninn í dagskrá kvöldsins. Því miður gengu þessi átrúnaðargoð okkar heimamanna í gegnum ýmsar hremmingar, svo sem slitinn bassastreng, skvaldur í salnum og þreytu hjá hluta hans, vegna þess hve tónleikarnir drógust á langinn. Í rauninni má líkja því sem gerðist við ákveðinn anga Murphy's lögmálsins sem myndi þá ganga út á það að teknu tilliti til getu hljómsveitarinnar og þekktra staðreynda um framgöngu hennar, þegar bezt lætur, að "það sem ekki á að geta gerst, gerist samt á versta tíma". Minnug frábærrar frammistöðu hópsins í fyrra vitum við að kvöldið í gær var einfaldlega ekki þeirra bezta, en að sama skapi liggur fyrir að þeirra tími mun koma aftur. Svo það sé á hreinu þá gerði hljómsveitin að sjálfsögðu margt gott og prógammið var metnaðarfullt, en það komst því miður ekki nógu vel til skila.

Myndir má sjá með því að smella hér.


Föstudagurinn

- Annar í Hammond -


Það var skipt um landsliðsþjálfara á föstudagskvöldið. Landsliðþjálfari síðustu ára, Halldór Bragason, forfallaðist á síðustu stundu vegna geðvonskunnar í Eyjafjallajökli. Dóri ætlaði að leggja land undir fót (vængi undir sitjanda) frá Austin í Texas til Glasgow, þaðan til Akureyrar - frá Akureyri til Reykjavíkur og frá Reykjavík til Egilsstaða. Þaðan átti að redda honum yfir nýopnaða Öxi, þannig að hann kæmist með hatt sinn og staf á hátíðina eins og auglýst hafði verið.

Þetta ferðaplan gekk einfaldlega ekki upp á endanum og því varð Dóri að sætta sig við að komast ekki á 5 ára festivalið á Djúpavogi, Hammondhátíðina, sem hann á svo mikinn þátt í að hafa komið af stað.

Vegna óvissu um flugsamgöngur hafði verið sett ferðabann á fólkið í 56 riff´s (sjá umfjöllun um fyrsta kvöldið) og voru þau öll reiðubúin að standa vaktina, enda hafði þá þegar komið fram hjá Margréti Guðrúnardóttur að hún gæti alveg hugsað sér að dvelja áfram á Djúpavogi. Nóg um það í bili.

Hornfirðingum vex sífellt fiskur um hrygg, enda þaðan stunduð útgerð í stórum stíl. Hulda Rós og Rökkurbandið héldu á lofti merki tónlistarlífs á Hornafirði með miklum ágætum. Bandið spilaði síðast á Hammondhátíð 2007 og vísum við til umfjöllunar heimasíðunnar um þeirra framlag föstudagskvöldið það ár. Til að gera langa sögu stutta voru ýmsum tónlistarstefnum, þ.á.m. léttum djassi gerð góð skil af fagmennsku og án þess að reynt væri að gera einfalda hluti of flókna. Vissulega nutu þau fulltingis Hr. Hammond, Svavars Sigurðssonar og reyndist hann þeim betri enginn. Þeir Siggi lögga með lipra fingur bakvið hnúajárnin, Bjartmar garðyrkjumaður með kontrol á stóra bassanum sínum og Eymundur trymbill af ættstofni þeirra Meysalinga leystu hlutverk sín af stakri prýði. Hulda Rós er sífellt í sókn sem söngkona og auk þess hefur hún fílinginn í lagi. Hornfirðingarnir reyndust svo sannarlega aufúsugestir.

Víkjum nú aftur að landsliðinu. Hinn nýi (allavega tímabundni) landsliðsþjálfari, Björgvin Gíslason, tefldi fram liðinu frá því á fyrsta kvöldi, sbr. formálann hér á undan. Í hópinn höfðu bæst efnilegasti tónlistarmaður okkar Íslendinga, Þorleifur Gaukur Davíðsson og hinn geðþekki bassaleikari, Róbert Þórhallsson, sem reyndar gerði garðinn frægan á Hammondhátíð 2009. Þorleifur reyndist svo sannarlega Gaukur í horni og er ljóst að þessi lítilláti og hæfileikaríki piltur á að geta náð mjög langt, miðað við þá fjölhæfni sem hann greinilega býr yfir og sýndi svo eftirminnilega í gær, ekki síst á munnhörpuna. Ekki er hægt að bæta miklu við umfjöllun frá fyrsta kvöldi, en þó er ástæða til að leggja áherslu á hve glæsilega hópurinn gerði margt af fingrum fram og án þess að allir hefðu æft saman sem heild. Þar var eigi hlutur Svavars Sigurðssonar sístur og greinilegt að hinir félagarnir kunnu vel að meta framlag hans.

Sérstaka athygli vakti tvíbössunarsamningurinn, sem Þorleifur Guðjónsson og fyrrnefndur Róbert gerðu með sér og kynntu helstu ákvæði hans í nokkrum lögum. Við verðum auk þess að nefna glæsilega framgöngu Margrétar söngkonu og hljómborðsleikara, sem undirstrikaði frábæra frammistöðu fyrsta kvöldsins og virkaði mun öruggari og meira töff og lék og spilaði eins og hún væri á heimavelli, enda hefur hún tekið ástfóstri við staðinn.

Of langt mál væri að telja upp marga hápunkta kvöldsins og því viljum við einfaldlega í orðleysi okkar segja: Þetta var örugglega skemmtilegasta kvöld hammondhátíðar frá upphafi og í hópi þeirra kvölda sem hæst standa í tónlistarlegu tilliti.

Myndir má sjá með því að smella hér.


Laugardagurinn

- Þriðji í Hammond -


Það hlýtur að vera erfitt að vera ungur og upprennandi tónlistarmaður og þreyta sína stærstu frumraun fyrir framan fullan sal á Hótel Framtíð, þegar stór hluti gesta er eingöngu kominn til að hlusta á hina rómuðu reggí-hljómsveit, Hjálma. Þegar ofan á bætist að græjurnar sem að menn eru vanir ná ekki að tengjast við magnarakerfið sem menn hljóta að ganga út frá að virki, þá er hætta á að eitthvað fari úr böndunum. Piltarnir í Arachnophobia risu þó strax að nokkru leyti undir þeim væntingum sem við þá voru bundnar og héldu haus þrátt fyrir það bras sem við erum að reyna að lýsa hér að framan. Stærsti gallinn í hljóðblöndun var einfaldlega sá að hið talaða og sungna mál heyrðist allt frá því ekki og yfir í mjög illa. Eftir byrjunarskjálfta komust þeir þó ágætilega í gang og greinilegt að stór hluti salarins var með á nótunum og hvatti þá til dáða. Hljómsveitina skipa þrjú afsprengi úr tónlistarskólanum undir stjórn Svavars, þeir Helgi Týr Tumason, Arnar Jón Guðmundsson og Kjartan Ágúst Jónasson (mynd af honum misfórst og vísum við á myndasafnið frá fyrsta kvöldi). Auk þeirra spilaði með þeim, ýmist á gítar eða bassa félagi þeirra Breki Steinn Mánason. Það dylst engum sem á hlýddi að þarna fara mjög efnilegir tónlistarmenn og framtíðin er svo sannarlega þeirra og ekki einungis á hótelinu á Djúpavogi.

Hjálmar birtust í salardyrum.

Átta vaskir sveinar, þar af þrír blásarar, stigu nú á svið. Allt frá fyrsta bíti var ljóst að hinn heiti salur, eins og Svavar lýsti honum, var kominn til að skemmta sér. Mörg kunnugleg lög hljómsveitarinnar runnu í gegn, hvert af öðru og fljótlega fóru söngvissir menn úti í sal að taka undir, hvattir til þess af Steina söngvara og Samma blásara. Vegna umfjöllunarinnar um annan í Hammond minnum við á að við töldum það kvöld vera hið skemmtilegasta frá upphafi. Því miður fyrir það en sem betur fer fyrir hátíðina þá fór titillinn "skemmtilegasta kvöldið" yfir á kvöldið sem Hjálmar komu á Djúpavog í fyrsta sinn. Það er ekki að ástæðulausu, sem þeir félagar eru vinsælasta hljómsveitin á Íslandi í dag og höfðar hún bæði til hinna ungu sem og þeirra sem enn muna gömlu taktana hjá Victor Silvester og hjómsveit.

Svo það sé á hreinu þá var sett aðsóknarmet laugardagskvöldið 24. apríl 2010. Húsnæði Hótel Framtíðar var sneisafullt - það hefur aldrei gerst áður á hátíðinni þessi fimm ár sem hún hefur verið haldin.

Í fyrra vorum við með væmna samantekt um þátt heimamanna, sem þó átti fullan rétt á sér og á ekki síður vel við í dag. Af þeirri ástæðu þökkum við enn og aftur öllum þeim fjölmörgu heimamönnum sem lögðu hönd á plóg og gerðu Hammondhátíð 2010 að þeim atburði sem hún varð.

Hafi verið talin ástæða til þess strax í fyrra að festa kaup á Hammondorgeli fyrir Hammondbæinn Djúpavog, þá er  svo sannarlega komin pressa á okkur öll núna að taka þátt í því að gera þann draum að veruleika.

Ekki er hægt að láta hjá líða að þakka öllum þeim fyrirtækjum og stofnunum sem styrktu hátíðina með beinum fjárframlögum (sjá heimasíðu Hammondhátíðar). Þá má ekki heldur gleyma öllum þeim sem borguðu sig inn og lögðu þannig sitt af mörkum að efla orðspor hátíðarinnar og gera forsvarsmönnum hennar kleift að leggja úr vör með hátíð númer sex af bjartsýni og kjarki.

Að síðustu þökkum við okkur tveimur fyrir að hafa haldið því til haga sem á hátíðinni gerðist, því það þakka okkur ósköp fáir aðrir. Takk samt.

Myndir má sjá með því að smella hér.

 

 

Hafa samband