FORSÍÐA | UM HÁTÍÐINA | UPPLÝSINGAR | MIÐASALA | 2023 | 2020 | 2019 | 2018 | 2017 | 2016 | 2015 | 2014 | 2013 | 2012

 


MIÐASALA ER Á TIX.IS

LISTAMENN HAMMONDHÁTÍÐAR 2020

NÝDÖNSK
EYÞÓR INGI
KILLER QUEEN
200.000 NAGLBÍTAR
CONEY ISLAND BABIES
BETWEEN MOUNTAINS


KILLER QUEEN

Killer Queen var stofnuð í þeim tilgangi að leika eina kvöldstund á Græna hattinum. Þetta var 2009. Síðan þá hefur bandið notið þess að gera þessum ótrúlega lagabanka Queen hátt undir höfði með yfir 45 tónleikum fyrir fullum sölum og jafnvel dalnum í Eyjum.

Ekki missa af þessu krakkar mínir - We will rock you.

Killer Queen leikur á upphafskvöldi Hammondhátíðar 2020, fimmtudaginn 23. apríl.

Meðlimir:
Magni Ásgeirsson - söngur
Einar Þór Jóhannsson - gítar
Summi Hvanndal - bassi
Arnar Tryggvason - synth (einhver skrítin tegund af hammondorgeli)
Valmar Väljaots - hammondorgel
Valur Hvanndal - trommur


 

BETWEEN MOUNTAINS

Between Mountains var stofnuð af Kötlu Vigdísi og Ásrósu Helgu en þær bjuggu þá hvor í sínum firðinum á Vestfjörðum og stunduðu nám á Ísafirði. Hljómsveitin sigraði Músíktilraunir árið 2017.

Núna fer Katla Vigdís fyrir bandinu og semur hún sjálf öll lög og texta.

Með Kötlu spila bróðir hennar, Valgeir Skorri Vernharðsson á trommur, Ásrós Helga Guðmundsdóttir á hljómborð og Vernharður Jósefsson pabbi hennar á bassa.

Það má með sanni segja að hér sé á ferð gríðarlega hæfileikarík ung stúlka og platan hennar, Between Mountains, sem kom út í haust hefur hlotið frábærar viðtökur.

Between Mountains leikur á föstudagskvöldi Hammondhátíðar 2020, 24. apríl.

Meðlimir:
Katla Vigdís Vernharðsdóttir - söngur og gítar
Salóme Katrín Magnúsdóttir - hammondorgel og söngur
Vernharður Jósefsson - bassi
Valgeir Skorri Vernharðsson - trommur

 

200.000 NAGLBÍTAR

Norðlenska tríóið 200.000 naglbítar var stofnað árið 1993. Upphaflega hét hljómsveitin Gleðitríóið Ásar og hún sigraði í Glerárvision á Akureyri árið 1993. Gleðitríóið Ásar varð síðar Askur Yggdrasils en nafnið 200.000 naglbítar var að lokum tekið upp. Nafnið kemur úr Atómstöðinni eftir Halldór Laxness.

Hljómsveitin hefur gefið út þrjár breiðskífur, þá síðustu árið 2003. Árið 2008 gaf sveitin út tónleikaplötu sem tekin var upp með Lúðrasveit verkalýðsins. Sveitin hefur gefið út allmargar smáskífur síðan síðasta breiðskífa kom út þannig að hver veit nema ný breiðskífa líti dagsins ljós á næstu misserum.

Það eru fáar sveitir jafn öflugar og gefandi á sviði og við getum lofað brjáluðu stuði þegar þessir herramenn mæta á Hammondhátíð. Við hlökkum allavega sjúklega mikið til.

200.000 naglbítar leika á föstudagskvöldi Hammondhátíðar 2020, 24. apríl.

Meðlimir:
Vilhelm Anton Jónsson - söngur og gítar
Kári Jónsson - bassi
Benedikt Brynleifsson - trommur


CONEY ISLAND BABIES

Strákarnir í Coney Island Babies hittust fyrst 7. febrúar 2004. Einu mennirnir í bænum sem allir áttu snjáð eintak af Ocean Rain með Echo and the Bunnymen í plötuskápnum. Undir þokumettuðum himni, í kjallara í Neskaupstað, hófu þeir æfingar, hafa ekki enn hætt og hafa fengið byr undir báða vængi – eru byrjaðir að æfa uppi í risi...

Þeir staðfestu tilvist sína með útgáfu plötunnar Morning to Kill árið 2012 og næsta plata er væntanleg síðar á þessu ári, með hækkandi sól og lækkandi vaxtastigi.
Þeir lýsa sjálfum sér sem „indí-bandi“, innblásið af þungum og þéttum takti hinnar norðfirsku öldu og tregafullri tilvist hins miðaldra nútímamanns.

Coney Island Babies leikur á laugardagskvöldi Hammondhátíðar 2020, 25. apríl.

Meðlimir:
Geir Sigurpáll Hlöðversson - söngur og gítar
Guðmundur Höskuldsson - gítar
Hafsteinn Már Þórðarson - bassi
Jón Knútur Ásmundsson - trommur
Jón Ólafsson - hammondorgel

 

FARA EFST Á SÍÐU


NÝDÖNSK

Við erum algerlega í skýjunum með að geta boðið gestum Hammondhátíðar upp á eina stærstu hljómsveit Íslandssögunnar í annað sinn, en Nýdönsk spilaði síðast á Hammondhátíð árið 2013. Síðan þá hefur fjölmargt á daga sveitarinnar drifið, m.a. tvær breiðskífur og fjölmargir tónleikar, en tónleikar Nýdönsk þykja með þeim vönduðustu sem völ er á hér á landi. Þar er sannarlega engu logið.

Smellir þessarar hljómsveitar eru orðnir svo margir að of langt mál væri að telja þá alla upp hér en við getum með sanni sagt að fáar íslenskar hljómsveitir hafa yfir jafn stórum og fjölbreyttum lagalista að ráða. Á sínu 33. aldursári hefur hljómsveitin aldrei verið ferskari og þeir bíða í ofvæni eftir að hitta gesti Hammondhátíðar á ný.

Nýdönsk leikur á laugardagskvöldi Hammondhátíðar 2020, 25. apríl.

Meðlimir:
Björn Jörundur Friðbjörnsson - söngur
Daníel Ágúst Haraldsson - söngur
Jón Ólafsson - hammondorgel
Stefán Hjörleifsson - gítar
Ólafur Hólm Einarsson - trommur
Ingi Skúlason - bassi

FARA EFST Á SÍÐU


EYÞÓR INGI

Eyþór Ingi er án efa einn af okkar fremstu söngvurum í dag. Hann hefur einnig getið sér gott orð fyrir að vera mögnuð eftirherma.

Eyþór Ingi er uppalinn á Dalvík og vakti fyrst verðskuldaða athygli árið 2008 þegar hann sigraði í sjónvarpsþættinum Bandið hans Bubba á Stöð 2, aðeins 18 ára gamall. Eyþór Ingi hefur síðan komið fram með ýmsum hljómsveitum, meðal annars með proggsveitinni Eldberg sem gaf út sína fyrstu plötu 2011 og hinni goðsagnakenndu Todmobile. Síðustu ár hefur hann einnig verið að gera góða hluti með hljómsveit sinni, Rock Paper Sisters.

Eyþór kom til okkar á Hammondhátíð 2014 þar sem hann söng bæði með Skonrokk og Todmobile. Við erum því gríðarlega spennt að taka á móti honum aftur.

Eyþór Ingi leikur á lokatónleikum Hammondhátíðar 2020, sunnudaginn 26. apríl. 

Meðlimir:
Eyþór Ingi Gunnlaugsson - söngur

FARA EFST Á SÍÐU

 
 

Hafa samband