|
Hammondhátíð Djúpavogs 2007
Bj. Hafþór
Guðmundsson, sveitarstjóri, var sérlegur rýnir Hammondhátíðar 2007.
Hér fyrir neðan má sjá umfjallanir eftir hann fyrir alla fjóra daga
hátíðarinnar.
Fimmtudagurinn
- Góð byrjun -
Ekki er hægt að segja annað en að Hammond hátíðin á Djúpavogi hafi
farið vel af stað fimmtudagskvöldið 31. maí.
Hr. Hammond sjálfur, Svavar Sigurðsson, kallar þessa samkomu
“Djúpavogskvöldið”. Í gærkveldi, eins og á síðasta ári, fékk hann
heimamenn til að ríða á vaðið og skemmta fjölmörgum gestum, sem
reyndar fylltu hundraðið.
Hljómsveitir kvöldsins voru tvær;
Fyrst steig á svið unglingahljómsveitin Arachnophobia. Hún naut
aðstoðar Svavars, er sat við “Hammond Drottninguna” sem Karl heitinn
Sighvatsson átti á sínum tíma.
Ekki var þó áberandi unglingabragur í framkomu og hljóðfæraleik þeirra
Arnars Jóns, Kjartans, Helga Týs og Arons Daða, sem voru “pottþéttir”
og gerðu efni sínu góð skil. Þegar leið á prógrammið bættust í hópinn
slagverksleikararnir Otto Maier og Silvia Hromadko og ferðaðist
hópurinn þá m.a. um suðrænar slóðir. Vel að verki staðið.
  
   
Eftir hlé “þandi lúðra sína” öldungadeild rokkara á staðnum,
hljómsveitin sallaD, styrkt með tveim liðsmönnum, Svavari, sem var
farinn að “fíla Hammondið í botn” og Írisi Birgisdóttur, sem söng
“raddir á bak við Kristján Ingimarsson”. Við hljóðfærin voru Ýmir Már,
Jón Ægir, Óli Björns, og Gummi. Prógrammið var sótt á klassískar
slóðir rokksins og keyrt fram af krafti, en jafnframt kunnáttu og
leikni.
  
   
Ef eitthvað mætti finna að voru “desibilin” e.t.v. óþarflega mörg, en
þetta var nú einu sinni rokk af beztu gerð og þá verður mönnum að
leyfast að ýta aðeins við tökkunum. Kynningar Svavars allt kvöldið
voru óborganlegar og allir flytjendur virkuðu sviðsvanir og var ekki
að sjá að neinn beygur væri í þeim, enda vanir og góðir menn á ferð,
hvort sem litið var til hinna eldri eða yngri. Á Svavar sérstakan
heiður skilinn fyrir það, hve duglegur hann hefur verið sem
skólastjóri Tónlistarskóla Djúpavogs að virkja efnilega nemendur og
fela þeim ögrandi verkefni.
Föstudagurinn
-
Ekki versnar það -
Jæja, þá hélt Hammond hátíðin á Djúpavogi áfram föstudagskvöldið 1.
júní.
Nú heimsóttu okkur Austfirðingar, annars vegar úr suðri og hins vegar
austan að.
Fyrstir stigu á svið Hornfirðingarnir, sem hr. Hammond, Svavar
Sigurðsson, kallaði Mæðusveit Sigurbjarnar, en það var snarlega
leiðrétt af talsmanni hljómsveitarinnar, Bjössa söngvara. Þrír
meðlimir heita Sigurður (Guðnason á gítar - Hannesson á bassa - Kr.
Sigurðsson á trommur) og einn heitir Björn (Sigfinnsson, söngvari),
þannig að þetta er Mæðusveitin Sigurbjörn (ekki rugla saman við
SigurRós).
Þeir voru með 2 gestaspilara; hljómborðsleikarann, Heiðar, son
Sigurðar bassaleikara, en hann var þrælfínn og Önnu Lilju Karlsdóttur,
sem bæði er góður trompetleikari og “töff” söngvari. Auk þess tók
Hulda Rós, dóttir Sigurðar gítarleikara 2 lög, sem hefðu mátt vera
fleiri, því þar er efnileg stúlka á ferð með afburða góða rödd.
Mæðusveitin gerði góða hluti og ljóst að þeim er margt til lista lagt.
Lagavalið í heildina var gott og fögnuðu áheyrendur þeim vel, en þeir
voru því miður helmingi færri en fyrsta kvöldið. Meðlimir
Mæðusveitarinnar þekkja sín takmörk og ljóst að þeir eiga eftir að
vaxa á komandi blúshátíðum á Hornafirði og koma vonandi aftur hingað á
Djúpavog.
  
   
Garðar Harðar var mættur á svæðið með Blúsbrot sitt, skipað
hljóðfæraleikurum úr Fjarðabyggð. Slagverksleikarinn Otto Meier, sem
segir frá í umfjöllun um 1. kvöldið borðaði ekkert fyrir tónleikana,
þar sem hann skildi málið þannig að Garðar ætlaði að útdeila
Blúsbrauði líkt og frelsarinn forðum (orðið “brot” á þýzku þýðir
“bauð”). Þetta leiðréttist þó fljótt og Garðar og félagar útdeildu
þess í stað firna góðri tónlist og náðu hörku tökum á salnum.
Með Garðari í för voru Ágúst Ármann Þorláksson á Hammond, Jóhannes M.
Pétursson (Jói á Gili) á bassa, Pétur Hallgrímsson á trommur, Jón
Hilmar Kárason á gítar og Guðjón Steinþórsson, einnig á gítar. Auk
þess að syngja, þandi Garðar sjálfur svo þriðja gítarinn.
Skemmst er frá því að segja að Blúsbrotið á fullt erindi á hvaða hátíð
sem er af þessu tagi. Jón Hilmar er jú bezti gítarleikari á
Austurlandi og Garðar, sem gefur honum lítið eftir í snilld á
hljóðfærið, er óumdeilanlega snjallasti blússöngvari í fjórðungnum og
réttnefndur BLÚSKÓNGUR. Pétur er viðurkenndur trommari og stendur ætíð
vel fyrir sínu og Jói, sem líklega hefur spilað minnst þeirra í seinni
tíð gerði það sem góður bassaleikari á að gera, fylla upp í bítið en
halda sér passlega til hlés. Það þarf ekki að fara orðum um færni
Ágústar Ármanns, þegar hljómlist er annars vegar og þótt hann væri að
spila á Hammond í fyrsta sinn í 31 ár, virtist það ekki há honum.
Guðjón er líka fanta góður á gítarinn en hafði sig of lítið í frammi.
  
   
Sem sagt; Annað kvöldið var þrælgott og öllum, sem að komu til sóma.
Félagarnir í Blúsbrotinu tóku það sérstaklega fram við undirritaðan að
þeir fögnuðu þessu framtaki með Hammond – hátíðina hér á Djúpavogi og
telja Svavar eiga mikinn heiður skilinn fyrir að koma henni á.
Laugardagurinn
-
Landsliðin stóðu sig misjafnlega vel -
Laugardaginn 2. júní voru landslið á vegum Íslendinga að reyna að
halda uppi heiðri landans á a.m.k. 2 vígstöðvum. Knattspyrnuliðið náði
aðeins 1/3 af mögulegum stigafjölda á móti “Lítt’á Steina”, en
blúslandsliðið mætti í Íþróttahúsið á Djúpavogi og skoraði vel.
Í landsliðshópnum voru: Halldór Bragason (hver vill ekki vera vinur
Dóra), Jakob Frímann Magnússon (Hammondmaður í stuði), Ásgeir
Óskarsson (með “prikin á lofti”), Eðvald Lárusson (eitt af gítargúrúum
landsins) og Guðmundur Pétursson (vopnaður bassa í þetta sinn og
glettilega góður). Markvörður og vítaskytta var Andrea Gylfadóttir og
klikkaði hún hvorki í vörn eða sókn.
Í stuttu máli sagt færðu þau u.þ.b. 200 áheyrendum eyrnakonfekt í
bezta gæðaflokki og ljóst að erfitt verður fyrir starfandi
landsliðsþjálfara á næsta árið að ganga fram hjá þeim. Andrea er
blússöngvari í heimsklassa og framkoman skemmir sko ekki fyrir. Ekki
er ástæða til að bera saman frammistöðu hópsins s.l. laugardagskvöld
og þeirra sem voru í sömu sporum á Hótel Framtíð fyrir rúmu ári síðan,
enda eru tvennir tónleikar aldrei eins. Að mati undirritaðs voru
tónleikarnir fyrir ári síðan “léttari og búsaðri” og ljóst að þar
náðist upp betri stemming (líklega spilaði salurinn þar inn í), en
tónleikarnir 2. júní voru einstaklega áheyrilegir og skilja sem slíkir
meira eftir þegar upp er staðið.
  
   
Í hléi léku ungir heimamenn (sjá umfjöllun um 1. kvöldið) og eins og
vænta mátti geta menn áfram verið stoltir af þeim.
Fyrr þennan sama dag höfðu Agnar Már Magnússon og Hrund Ósk Árnadóttir
troðið upp í Löngubúð og heillað áheyrendur upp úr skónum með snjöllum
flutningi. Því miður var ljósmyndari hátíðarinnar vant við látinn og
það hreinlega gleymdist að nálgast myndir af þeim Agnari og Hrund. Ef
einhver, sem þetta les, á mynd af þessum viðburði í fórum sér væri hún
vel þegin af heimasíðunni.
Sunnudagurinn
-
Hammond-orgelið á heimavelli -
Þeir sem sóttu upphafskvöld og 3ja kvöld Hammond-hátíðarinnar á
Djúpavogi fengu beint í æð áhugaverðan fróðleik um tilurð
Hammond-orgelsins. Úrsmiði að nafni Hammond rann til rifja hve fátækir
söfnuðir í Bandaríkjunum áttu erfitt með að verða sér úti um orgel til
að nota við kirkjulegar athafnir. Hann ákvað að smíða grip til að bæta
úr þessu og úr varð hljóðfæri, sem ekki hefur eingöngu verið notað í
kirkjum, heldur einnig orðið einn mesti áhrifavaldur í rokk-sögunni og
leitt af sér marga snillinga bæði “gengna og gangandi”.
Á fjórða degi Hammond-hátíðarinnar var orgelið komið á heimavöll, því
það var notað við sjómannadagsmessu í Djúpavogskirkju.
Sóknarpresturinn, Sr. Sjöfn Jóhannesdóttir, predikaði og kirkjukórinn
söng við undirleik organistans, Svavars Sigurðssonar. Einleik á
trompet lék Otto Meier.
Á eftir messu spilaði Svavar síðan nokkur sjómannalög við góðar
undirtektir.
  
   
Á þennan viðeigandi hátt lauk Hammond-hátíð Djúpavogs árið 2007.
Hátíðin var nokkru betur sótt en upphafsárið 2006, en ljóst að það er
langt í land áður en okkur tekst að markaðssetja hana betur hér fyrir
austan. Orðspor hennar hefur þó greinilega aukizt og bezta auglýsingin
verða ánægðir tónlistargestir og -flytjendur og sífellt stækkar hópur
beggja. Þeir sem komu lengst af voru líklega Valdís Ingimundardóttir
og Þórður Ársælsson, sem lögðu land undir fót alla leið frá Akranesi.
Mestan heiður af því að sækja alla viðburði hátíðarinnar eiga samt
heiðurshjónin Erla Ingimundardóttir og Ingimar Sveinsson, sem
greinilega eru yngri í anda en við sum hver hin.
(Vegna hugleiðinga hér að ofan skulum við muna, að við getum ekki
ætlazt til að aðkomufólk komi til okkar á áhugaverða atburði ef við
sjálf útnáurumst hér heima þegar atburðir á borð við Hammond-hátíð eru
í boði í nágrenni við okkur. Við skulum því vera dugleg að blanda geði
við nágranna okkar og blanda geði við þá, þegar þeir bjóða upp á
tónleika eða slíkt):
Er hér með öllum þeim færðar miklar þakkir, er lögðu hönd á plóg vegna
Hammond-hátíðar, áheyrendum, flytjendum, tæknimönnum, Hótelhaldara og
hans fólki, forsvarsmönnum Íþróttamiðstöðvarinnar, styrktaraðilum,
starfsfólki hátíðarinnar. Hið sama gildir um alla aðra, sem létu sig
varða vöxt hennar og viðgang.
|
|