FORSÍÐA | UM HÁTÍÐINA | UPPLÝSINGAR | MIÐASALA | 2017 | 2016 | 2015 | 2014 | 2013 | 2012 | 2011 | 2010 | 2009 | 2008 | 2007

 


Hammondhátíð Djúpavogs 2008

Bj. Hafþór Guðmundsson og Ólafur Björnsson voru sérlegir rýnar Hammondhátíðar 2008.
Hér fyrir neðan má sjá umfjallanir eftir þá fyrir alla fjóra daga hátíðarinnar.

Þá er einnig hægt að skoða myndir frá hverju kvöldi, en tenglar á þær eru neðst í hverri rýni


Fimmtudagurinn

 - Hammondhátíðin 2008 fer vel af stað -

Hammondhátíðin 2008 var sett fimmtudaginn 1. maí á Hótel Framtíð á Djúpavogi. Forsprakki hennar frá upphafi hefur verið Svavar Sigurðsson og setti hann hátíðina að viðstöddu fjölmenni. Í upphafi vega var 1. kvöldið tileinkað heimamönnum en nú hefur "útbreiðslusvæðið" verið stækkað og flytjendur sóttir um stóran hluta Austfirðingafjórðungs. Það þýddi að mönnum var boðið upp á vaxandi hornfirzka sveit, ungliðasveit heimamanna og þétta blússveit úr Fjarðabyggð.

Salurinn á Hótel Framtíð var skemmtilega skreyttur af Silviu Hrómadko og sviðið hafði verið flutt í hinn enda hans m/v flestar uppákomur, sem þar hafa verið til þess. Kom það mjög vel út og gefur fyrirheit um ánægjuleg kvöld framundan.

Kvöldið hófst með Huldu Rós og Rökkurtríóinu frá Hornafirði. Hulda Rós söng, Sigurður faðir hennar Guðnason lék á gítar, Eymundur Ragnarsson sá um slagverkið og Bjartmar Ágústsson sló bassann, bæði þennan "venjulega" sem og forláta kontrabassa. Í fjarveru Heiðars Sigurðssonar sá hr. Hammond, Svavar Sigurðsson, um að þenja Drottninguna (fyrrum Hammond orgel Karls heitins Sighvatssonar).
Prógrammið hófst rólega hjá bandinu sem lék blús og blússkotin lög eftir Tom Waits, Janis Joplin o.fl. Þegar á leið færðist nokkurt fjör í leikinn með meira tempói og skemmtilegheitum og salurinn tók vel við sér. Bandið var þétt og lítið hægt að setja út á það. Hulda Rós er frábær söngkona sem svo sannarlega á framtíðina fyrir sér. Hún hefur gott vald á röddinni, skemmtilegan tón og hefur þetta "extra" sem þarf til að geta sungið blús. Það hefði þó verið gaman að heyra hana fara oftar upp á háu tónana, því hún getur það auðveldlega.
Sé litið til þess að ekki eru nema nokkrir mánuðir síðan þessi hljómsveit var stofnuð, er óhætt að segja að hún sé „bráðþroska“, því erfitt er að trúa aldrinum þegar þéttleikinn kemur í ljós, maður myndi frekar ætla að þarna væri hljómsveit með nokkurra ára reynslu á bakinu. En hljóðfæraleikararnir sem hana skipa eru ýmist mjög vaxandi eða orðnir þaulvanir.
Ef setja ætti út á eitthvað, væri það agavalið sem var kannski heldur mikið á rólegu nótunum, t.a.m. var uppklappið rólegur blússlagari. Engu að síður opnuðu Hulda Rós og Rökkurtríóið Hammondhátíðina með stæl og hituðu gesti upp fyrir það sem koma skyldi.

Átta ára afrakstur starfs Svavars að tónlistarmálum á Djúpavogi kom berlega í ljós, þegar ungliðasveitin „Friðpíka“ steig á svið, en hana skipa Aron Daði (söngur / bassi), Arnar Jón Guðmundsson, (gítar / trommur) og Kjartan Jónasson, (gítar / orgel). Eins og Svavar sagði, þegar hann kynnti þá félaga, hafa þeir komið fram á öllum hátíðunum þrem og getur hann verið stoltur af því að hafa vísað þeim piltum fram á veg á tónlistarsviðinu. Ljóst er að þeir hafa mikið til brunns að bera og var ánægjulegt að sjá að þeir eru orðnir færir á fleiri hljóðfæri en þau sem þeir hafa farið fingrum um undanfarin ár. Þannig er Aron Daði, sem hóf feril sinn sem saxófónleikari, orðinn góður söngvari með „örugga framkomu. Arnar Jón, sem hingað til hefur helzt barið húðir er skyndilega orðinn þrælgóður gítarleikari og Kjartan, þekktur sem bassaleikari, kann greinilega einnig að strjúka gítarstrengi og var auk þess ekki feiminn við sjálfa Drottninguna. Það má taka fram að Friðpíka var eina bandið sem flutti m.a. eigið efni þetta kvöld og var það bæði frumlegt og skemmtilegt. Virkilega gott framlag hjá þeim félögum.

Aðalnúmer kvöldsins átti að vera Blúsbrot Garðars Harðar og það gekk svo sannarlega eftir. Með Garðari í för í þetta sinn voru „prófessor“ Ágúst Ármann Þorláksson á Hammond, Þorleifur (sjálfur) Guðjónsson á bassa, Pétur (sankti) Hallgrímsson á trommur og (heilagur) Jón Hilmar Kárason á gítar. Auk þess að þenja raddböndin sló (meistari) Garðar fagmannlega strengi á gítar sínum. Þeir piltar koma allir úr Fjarðabyggð. Óþarfi er að orðlengja það að þeir félagar eru allir afburða hljóðfæraleikarar. Ágúst Ármann er mjög yfirvegaður á orgelið en fylgir þeim félögum vel eftir og tekur sólóin sín af kostgæfni, þegar honum er uppálagt, áreynslulaust en samt með „fílingi“. Pétur er mjög þéttur trommuleikari og enginn aukvisi þar á ferð, enda hefur maðurinn haldið takti hjá ýmsum þekktustu hljómsveitum sem hafa vaxið upp úr norðfirzku tónlistarlífi og gert það gott. Um hæfni Þorleifs á bassann efast enginn, enda eftirsóttur á landsvísu og auk þess er hann mjög lifandi á sviði. Þess utan blandar hann sér í sönginn og raddar áheyrilega í völdum köflum. Jón Hilmar hefur verið eitt bezt varðveitta leyndarmálið í hljómlistinni fram til þessa, en ljóst að hann er kominn á landsmælikvarða í gítarleik og er því frambærilegur á hvaða sviði sem er. Garðar er lítill eftirbátur hans á gítarinn og blús söngvari er hann af guðs náð og að mati annálsritara á hann þar heima í landsliðshópi. Ekki var þó flutningur þeirra félaga gallalaus, enda ekki atvinnumenn í þeim skilningi á ferð. Þeir vissu þó yfirleitt upp á hár, hvað þeir voru að gera í lögunum en gleymdu því stundum að í upphafi skyldi endinn skoða því í einstaka tilvikum bar á óöryggi þegar klára átti lögin. Hlé, sem þeir félagar tóku á flutningi sínum, virtist gera þeim gott, því þeir mættu tvíefldir til leiks og fóru þá hreinlega á kostum. Ljóst er að Halldór Bragason og félagar þurfa að hafa sig alla við í kvöld svo þeir verði ekki á endanum upphitunarsveit fyrir þá Blúsbrotsfélaga, en líklega eru nú nokkur ár í það.

Vert er að hrósa hljóðmönnum, þeim Jóni Ægi og Magnúsi Kristjánssyni fyrir þeirra framlag, því sjaldan hefur „sándið“ borizt betur um húsakynnin á Hótel Framtíð.

Í kvöld, föstudaginn 2. maí, mun Riot band Halldórs Bragasonar stíga á stokk en það inniheldur sannkallað landslið í hljóðfæraleik; Þóri Baldursson, Ásgeir Óskarsson, Jón Rafnsson og Björn Thoroddsen, auk Dóra Braga. Ekki minnkar standardinn á laugardaginn þegar Stórsveit Samma þenur lúðra í orðsins fyllstu merkingu. Heyrzt hefur að nú þegar sé von á skipulögðum sætaferðum úr nágrannabyggðarlögum, enda hefur þessi 18 manna sveit getið sér gott orð fyrir líflega og skemmtilega framkomu.

Endahnúturinn verður síðan á kristilegum nótum í Djúpavogskirkju, þar sem Svavar stýrir kór sem hann hefur æft á undanförnum árum og sett saman prógamm sérstaklega fyrir þessa hátíð. Auk þess syngur Kristjana Stefánsdóttir gullsöng við undirleik Tregasveitar sinnar. Ennfremur stígur Berglind Einarsdóttir á stokk og mun halda uppi heiðri heimamanna, ásamt Svavari og kórnum.

Það eru svo sannarlega áhugaverðir dagar framundan á þriðju Hammondhátíð Djúpavogs og sérhver á að geta fundið eitthvað við sitt hæfi fyrir utan þá sem ætla að mæta á öll kvöldin eins og systurnar Ingimundardætur.
 
Myndir frá kvöldinu má skoða með því að smella hér

Föstudagurinn

 - Annar í Hammond -

Það voru svo sannarlega engir aukvisar á ferð á Hótel Framtíð, þegar dagskrá föstudagsins 2. maí hófst. Halldór Bragason (Dóri Braga) er einn þeirra örfáu, er komið hafa fram á öllum hátíðunum þrem hingað til. Hann getur talist skírnarvottur hátíðarinnar og er ein helzta hjálparhella Hr. Hammond (Svavars Sigurðssonar) að laða til þátttöku ýmsa meistara á sviði blústónlistarinnar eins og flytjendalistinn undanfarin ár ber með sér. Hann bauð þetta árið upp á fjóra landsþekkta snillinga, hvern á sínu sviði; þ.e. Þóri Baldursson á Hammond, Ásgeir Óskarsson á trommur, Jón Rafnsson á bassa og Björn Thoroddsen á gítar. Auk þess var Dóri vissulega þarna sjálfur og er orðinn nokkurs konar vörumerki þeirrar tónlistar sem hann hafur einbeitt sér að og á rætur sínar meðal annars í Amríku en hann er snjall tregasöngvari og pottþéttur blúsgítarleikari.
Þegar Riotbandið hóf leik sinn skynjuðu viðstaddir strax að þarna voru heimsklassa tónlistarmenn á ferð. Krafturinn sem einkenndi leik þeirra í byrjun skilaði sér þó ekki alveg til enda, einkum vegna þess að treginn varð gleðinni og hressileikanum yfirsterkari í tilfellum. Með þessu er ekki verið að kasta rýrð á flutning þeirra félaga sem var hafinn yfir alla gagnrýni. Þórir Baldursson fór að sjálfsögðu létt með að heilla Drottninguna enda einn reyndasti og færasti Hammondleikari Íslandssögunnar þar á ferð. Þess má til gamans geta að þegar Þórir mætti á Djúpavog á föstudeginum voru ekki liðnar nema 10 mínútur þegar hann var búinn að rífa Hammondgarminn allan í sundur til að stilla allt upp á nýtt. Jón Rafnsson mætti með forláta „Kontrafbassa“ og lék á hann af sinni alkunnu snilld, algerlega hnökralaus flutningur hjá honum. Halldór Bragason kann þetta allt saman frá A-Ö, þekkir hvert einasta blúslag út og inn og gerir þetta nánast „með annarri“. Mörg sóló, sem boðið var upp á, voru sannarlega á heimsmælikvarða og fingrafimi Björns Thoroddsen er slík að ekki er furða þó „Jazzlöggan“ í Kanada hafi verið nálægt því að handtaka hann fyrir of hraðan gítarleik á sínum tíma. Sóló kvöldsins var þó engu að síður „húðstrýking“ Ásgeirs Óskarssonar á trommusetti annars undirritaðs enda sýndi salurinn ótrúleg viðbrögð og þá fyrst fóru menn virkilega í gang. Ásgeir kom einnig mörgum á óvart með skemmtilegum söng í Procol Harum laginu A whiter shade of pale.

Það eitt að bjóða gestum Hammondhátíðar upp á jafn stór nöfn og þarna voru á ferð sýnir hve langt hún er komin í að vinna sér sess og viðurkenningu meðal fremstu tónlistarmanna þjóðarinnar á þessu sviði.
 
Myndir frá kvöldinu má sjá með því smella hér .

Laugardagurinn

 - Þriðji í Hammond -

Það er nokkuð ljóst að þeir sem veltu því fyrir sér hvort þeir ættu að mæta á Stórsveit Samma á Hótel Framtíð í gær og ákváðu svo að mæta ekki, ættu svo sannarlega að þjást af ekka í hálsinum í dag og jafnvel einhverja næstu daga.
 
Við undirritaðir veltum því lengi fyrir okkur hvernig hægt væri að gagnrýna svona kvöld eins við urðum vitni að í gær. Á endanum, eftir miklar pælingar um faglega gagnrýni, varð niðurstaðan sú að við ætlum að birta fyrstu "orðlausu" gagnrýnina á Íslandi, að því við best vitum.

Ástæðan er einföld. Við erum gjörsamlega orðlausir og teljum kvöldið hafið yfir alla gagnrýni.

Við þökkum einfaldlega fyrir okkur og látum myndirnar tala sínu máli.

Þær eru hér.

Sunnudagurinn

 - Fjórði í Hammond -

Jæja, þá er nú Hammond-hátíðin búin þetta árið.

Henni lauk með tvennum tónleikum og ríflega það í Djúpavogskirkju sunnudaginn 4. maí og að sjálfsögðu var hljóðfærið, sem hátíðin er kennd við, í forgrunni og setti sterkan svip á athöfnina frá upphafi til enda. Gestir voru fjölmargir og munu hafa losað 100, þannig að þetta varð næst bezt sótti viðburður hátíðarinnar.
Kór Djúpavogskirkju hafði í vetur og vor æft mjög áheyrilega dagskrá undir stjórn Svavars Sigurðssonar, sem einnig lék undir, en auk þess nutu flytjendur í nokkrum lögum undirleiks Kristjáns Marteinssonar (úr Stórsveit Samma / sjá umfj. um kvöld 3), sem kom til skjalanna með stuttum fyrirvara og leysti hlutverk sitt af hendi með miklum ágætum.
Kórinn er sífellt vaxandi og þó að karlaraddirnar væru veikar í tilfellum m/v raddir sönggyðjanna, hljómaði flest mjög vel og glaðlegt yfirbragð flytjenda varð til þess að „salurinn komst í stuð“. Undir lokin voru allir viðstaddir staðnir upp og klöppuðu í takt, þegar Svavar hafði sett upp hálfgerða sýningu á því hvernig Hammondinn var nýttur í kirkjum víða í Bandaríkjunum til að skapa þá stemmingu, sem m.a. má sjá í ýmsum kvikmyndum fyrri ára.
Eftir hlé, kaffi og kökur buðu Svavar og Berglind Einarsdóttir upp á eitt þekktasta verk úr smiðju J.S. Bach, „Air on a G string“ og var framganga þeirra mjög áheyrileg eins og við mátti búast. Berglind er helzta tromp heimamanna á sviði söngmennta og kemur allt of sjaldan fram sem einsöngvari, en auk þess að syngja eins og engill er framkoma hennar og virðuleiki á sviði henni mjög til sóma.
Ekki má láta hjá líða að nefna frumlegar kynningar Svavars á efni því sem hann kom að sem stjórnandi, þótt hann virkaði þreyttur og stundum eins og réttur andi væri ekki yfir honum.
Að þessu búnu kynnti Svavar til leiks Kristjönu Stefánsdóttur og Tregasveit hennar, en hana skipa; Agnar Már Magnússon á hljómborð, Scott McLemore á trommur og Ómar Guðjónsson á gítar (en hann er einnig ein aðal skrautfjöðrin í Stórsveit Samma). Skemmst er frá að segja að þarna voru frábærir tónlistarmenn á ferð, enda við hæfi, þar sem Kristjana sjálf er enginn aukvisi og hefur nú fest sig í sessi sem ein af drottningum Íslands á sviði jazz- og blústónlistar, en hún gerði einkum blúsnum skil í þetta sinn. M.a. flutti hún lög af væntanlegum hljómdiski sínum og hafði með í farteskinu tvö eigin lög - virkilega góð - sem hún frumflutti í Djúpavogskirkju. Fyrir okkur Djúpavogsbúa var það sérstök ánægja, þegar Kristjana kallaði á svið með sér hálfgerðan heimamann, Birnu Sif Snæbjörnsdóttur, en hún hefur m.a. getið sér gott orð, sem einn af þeim flytjendum, er urðu hvað langlífastir í Bandinu hans Bubba. Sungu þær saman lag Gershwin, „Summertime“ og gerðu það báðar virkilega vel. Er greinilegt að Birna Sif á framtíð fyrir sér á sviði sönglistar.
Ég verð að geta þess í lokin, að þegar Kristjana kynnti eitt laga sinna greindi hún á áhrifamikinn hátt frá kynnum sínum af Karli heitnum Sighvatssyni og þeirri tilviljun að hún skyldi standa á þessari stundu við hliðina á þekktasta hljóðfæri þess tónlistarmanns, er hún hóf feril sinn hjá.
 
Myndir frá tónleikunum má sjá hér.
 
Hugleiðingar í lokin frá Birni Hafþór Guðmundssyni, sveitarstjóra

Við hjá heimasíðu Djúpavogs höfum reynt okkar bezta til að gera hátíðinni skil í máli og myndum og þótt öruggt sé að allir verði ekki sammála umfjöllun okkar reynum við að bera höfuðið hátt og teljum að ekkert sveitarfélag af okkar stærðargráðu „norðan Alpafjalla“ geti sýnt fram á sambærilegt magn af myndum og texta v/ bæjarhátíðar sinnar. Þar er hlutur Ólafs Björnssonar mestur og á hann heiður skilinn fyrir það hversu síðan er „virk“ og rétt að upplýsa að við fáum mjög sterk (og nánast alltaf) jákvæð viðbrögð við þessum ágæta miðli, ekki sízt frá brottfluttum Djúpavogsmönnum.

Tíðarfarið var hátíðinni vissulega ekki hagstætt þetta árið og hefur mjög líklega dregið úr aðsókn. Hins vegar er það nú svo að allt of fáir virðast nenna að leggja land undir fót, þegar boðið er hér upp á slíkt eyrnakonfekt sem raun ber vitni. Reyndar verður að viðurkennast að við heimamenn erum að sama skapi að útnárast allt of mikið hér heima, þegar nágrannar okkar bjóða upp á sambærilegt. Helzt er að menn hverfi í „bræðslufnykinn á Borgarfirði“ og „harmonikkuhopp í Staðarborg“, þegar svo ber undir.

Um þátt fjölmiðla ber að segja sem minnst og líklegt að kostnaður sem lagður er í auglýsingar, skili sér engan veginn. Auk þess er ekki að sjá að fjölmiðillinn sem nýtur mestra tekna vegna auglýsinga, skili miklu til baka með fréttaflutningi eða annarri umfjöllun, þótt vissulega hafi verið á því undantekningar.

Undirritaður hefur undanfarin 3 ár orðið vitni að öllum atburðum Hammond-hátíðanna á Djúpavogi (utan þess að ég missti af tónleikum í Löngubúð í fyrra þar sem ég var að sækja Andreu Gylfa, Jakob Frímann o.fl. í flug). Öll árin hefur hátíðinni lokið í Djúpavogskirkju og er ég þeirrar skoðunar að ætíð hafi sá dagur orðið hápunktur hennar - ekki alltaf vegna þess að þar hafi verið „beztu númerin á ferð“, heldur vegna þeirrar stemmingar sem húsið skapar og sökum hljómburðarins sem margir flytjendur róma. Ég fullyrði að svo var einnig í gær og ég varð hrærður og bljúgur í hjarta og þakklátur fyrir þá framsýni, hugrekki og dugnað sem Svavar og hans tryggustu aðstoðarmenn (Hlíf og Þórir) hafa sýnt alveg frá upphafi. Sá dugnaður hefur orðið ýmsum heimamönnum o.fl. góð fyrirmynd og hafa margir þeirra sótt hátíðina frá upphafi. Nefni ég þar sérstaklega þær Vegamótasystur og maka þeirra. Ýmis fyrirtæki og einstaklingar hafa stutt hátíðina fjárhagslega, enda yrði fljótt um hana ella. Ég verð samt einnig að nefna að enn eru allt of margir sem virðast halda að það sé nánast formsatriði að komast fjárhagslega „í gegnum dæmið“ og sýna að mínu mati ekki nægan skilning á því að menn verða að mæta og greiða sig inn með bros á vör. Það gera reyndar margir sem betur fer og þeim fer greinilega fjölgandi. Eru öllum, sem komu að hátíðinni hér með færðar þakkir fyrir hönd sveitarfélagsins, en það leyfi ég mér að gera á grundvelli þess að þetta er „bæjarhátíðin okkar“.

Menn gætu spurt; Verður „hún“ að ári? Það hefi ég nú þegar gjört. Við mig er fullyrt að svo verði og mér skilst að strax sé byrjað að leggja línur með flytjendur o.fl. Það er vissulega tilhlökkunarefni og þá er bara að bíða og sjá ...................

 

 

Hafa samband